Áslaug Guðmundsdóttir hlýtur hvatningarviðurkenningu Álklasans 2021

Áslaug Guðmundsdóttir Lauk námi við Háskólabrú Keilis og hóf nám í Mekatróník hátæknifræði við Háskóla íslands 2017. Samhliða náminu hefur Áslaug unnið í kerskálum Rio Tinto í Straumsvík og starfar nú sem sérfræðingur í rafgreiningu. Áslaug býr í Hafnarfirði, er tveggja barna móðir og vinnur nú að lokaverkefni sínu „Straummælingar forskauta í kerskálum álvera“ en hún stefnir á að ljúka námi nú í vor.

Í lokaverkefni hennar vinnur hún að frumgerð straummælibúnaðar sem kemur til með að senda frá sér upplýsingar þráðlaust í tölvu eða síma. Mælibúnaðurinn þarf að mæla háan straum og vinna í mjög áskorandi umhverfi í kerskála. Með slíkum mæli er hægt að fylgjast betur með straumdreifingu forskauta í kerum og koma í veg fyrir að þau eyðileggist eða nýtist illa vegna þess að straumur er of hár eða of lágur.

Hugmyndin að verkefninu mótaðist þegar hún starfaði sjálf í kerskálum og þ.á.m. við straummælingar. Verkefni Áslaugar hlaut hvatningarviðurkenningu Álklasans þann 16. mars 2021 og hlýtur hún viðurkenningarskjal og 150.000 kr. Verðlaunin voru afhent á Nýsköpunardegi Álklasans sem haldin var að þessu sinni í Háskólanum í Reykjavík. Þetta er spennandi verkefni sem fróðlegt verður að fylgjast með í framtíðinni.

Við óskum henni Áslaugu innilega til hamingju með viðurkenninguna. 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is