Áslaug: Orkuáskorun í Færeyjum

Ég var ein af þeim heppnu nemendum sem fékk að taka þátt í flottu verkefni sem Hydrogen Learning Network ásamt fleirum stóðu að í Færeyjum. Við vorum fjögur sem fórum frá Háskóla Íslands.

Hópurinn sem ég var í var falið að vinna með stóru færeysku fyrirtæki, sem heitir Bakkafrost og er með laxeldi. Verkefnið var að finna út hvort og hvernig hægt væri að framleiða vetni í framleiðslunni hjá þeim.

Hópurinn okkar fékk að heimsækja Bakkafrost og sátum við þar fyrirlestur um framleiðsluna þeirra og fengum svo að sjá allt ferlið. Bakkafrost var mjög áhugasamt um þetta verkefni og lögðu mikið í að veita okkur allar þær upplýsingar sem við þurftum til að vinna að því.

Verkefnið var krefjandi en mjög áhugavert og skemmtilegt. Ég lærði mikið nýtt og kynntist frábæru fólki frá Noregi, Færeyjum, Orkneyjum og Kanada.

Fyrir utan verkefnið fórum við í hinar ýmsu ferðir um Færeyjar, fórum í fjallgöngu, bátsferðir og fleira sem var mjög skemmtilegt, sérstaklega því veðrið var mjög gott í þessa átta daga sem við vorum. Þessi ferð var frábær í alla staði og vona ég mikið að verkefnið haldi áfram að rúlla svo að fleiri geti notið.

Áslaug Guðmundsdóttir
Nemi í Mekatróník Hátæknifræði.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is