Tæknifræðisetur Háskóla Íslands opnað í Menntasetrinu við Lækinn

Nýtt Tæknifræðisetur Háskóla Íslands var formlega opnað við hátíðlega athöfn í Menntasetrinu við Lækinn í Hafnarfirði í gær um leið og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, undirrituðu samning um afnot Tæknisfræðisetursins af húsnæði Menntasetursins. Með flutningi tæknifræðinámsins í Menntasetrið hyggst Háskóli Íslands efla enn frekar umgjörð þess og leggja sterkan grunn að styttra fagháskólanámi í tæknigreinum.

Tæknifræði til BS-náms hefur undanfarin níu ár farið fram á vettvangi Keilis að Ásbrú í Reykjanesbæ en nemendur formlega útskrifast frá Verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands. Þar sem starfsemi Keilis að Ásbrú hefur aukist mikið, eflst og þróast og til þess að svara ákalli bæði atvinnulífs og nemenda var ákveðið að ráðast í breytingar á fyrirkomulagi tæknifræðinámsins og finna því stað nær höfuðborgarsvæðinu. Samningar náðust við Hafnarfjarðabæ fyrr á árinu um aðstöðu fyrir námið í Menntasetrinu við Lækinn og hófst kennsla þar í haust. Þar stunda nú 43 nemendur nám í greininni.

Flutningurinn er afar mikilvægur fyrir eflingu umgjarðar og aðstöðu tæknifræðináms en rekstur þess mun alfarið flytjast til Háskóla Íslands um áramót. Karl Sölvi Guðmundsson, dósent við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands, verður forstöðumaður Tæknifræðisetursins en hann hefur unnið ötullega að flutningi þess í Hafnarfjörð ásamt starfsfólki einingarinnar hjá Keili sem kemur nú formlega til starfa hjá Háskóla Íslands.

Flutningur tæknifræðinámsins er ekki síður mikilvægur þáttur í undirbúningi nýs fagháskólanáms í tæknigreinum sem veitir aðgang að öðru háskólanámi. Þegar er byrjað að bjóða upp á diplómanám í tæknigreinum á háskólastigi innan Tæknisetursins og er gert ráð fyrir að fyrstu nemendurnir brautskráist úr því námi að ári liðnu. Diplómagráðan veitir svo aðgang að öðru námi á háskólastigi, t.d. BS-námi í tæknifræði eða verkfræði.

Við opnunarathöfn Tæknifræðiseturs Háskóla Íslands í Menntasetrinu við Lækinn í gær undirrituðu Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, samning um afnot Tæknifræðisetursins af húsnæði Menntasetursins við Lækinn en starfsemi fyrrnefnda setursins fer fram á nokkrum stöðum í húsnæði Menntasetursins.

„Atvinnulífið á Íslandi kallar stöðugt eftir fleiri tæknimenntuðum einstaklingum um leið og gerð er krafa um fjölbreyttara námsframboð í tæknigreinum. Tæknifræðisetur Háskóla Íslands svarar þessu kalli með þróun núverandi náms í tæknifræði auk þess að bjóða upp á nýtt fagháskólanám í tæknigreinum. Það er vel við hæfi að finna þessari mikilvægu háskólagrein, tæknifræðinni, stað í þessu rótgróna skólahúsi,“ sagði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, við þetta tækifæri.

„Við fögnum komu Tæknifræðiseturs Háskóla Íslands til Hafnarfjarðarbæjar og hlökkum til að þróa og feta veginn með háskólanum. Hafnarfjarðarbær er bær öflugra fyrirtækja sem mörg hver starfa í tæknigeiranum og því mikið gleðiefni að geta boðið upp á tækninám á háskólastigi innan bæjarmarkanna. Þegar er mikið líf í Menntasetrinu og það sannarlega að standa undir nafni sem lifandi skólasamfélag. Við erum þess fullviss að þessi starfsemi muni tóna vel saman við það fjölbreytta nám sem fyrir er í húsinu og styrkja stoðir Menntasetursins við Lækinn sem hús sköpunar, fræða og tækni,“ sagði Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar, við undirritun samningsins.

Nánari upplýsingar um Tæknifræðisetrið veitir Karl Sölvi Guðmundsson, forstöðumaður Tæknifræðiseturs Háskóla Íslands, í síma 821-6466.

Fleiri myndir frá opnuninni.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is